Eitt orð áður en við byrjum: í þessum leiðarvísi notum við orðið hráefni fyrir það sem oft er kallað matarafgangar, skræl eða lífrænn úrgangur. Við gerum það vegna þess að um er að ræða verðmætt og næringarríkt hráefni sem margir hafa því miður misskilið sem úrgang í allt og langan tíma. Úrgangur er eitthvað sem mengar út frá sér, lyktar illa og almennt bara frekar óspennandi. En þegar við komum fram við lífrænan úrgang sem verðmætt hráefni opnast möguleikar til að nýta hann til góðs, svosem til bættrar jarðvegsheilsu, til ræktunar, til uppgræðslu, endurheimt vistkerfa og svo mætti lengi telja.
Allt um bokashi heimajarðgerð
Bokashi er samvinnuverkefni milli þín og milljóna góðgerla, sem samanstanda af mjólkursýrugerlum, ljóstillífunarbakteríum, gersveppum og ígulgerlum. Markmið verkefnisins er að koma lífrænum hráefnum sem falla til heima við í farsælan og umhverfisvænan farveg. Þitt hlutverk felst í að tryggja að góðgerlunum líði vel og fái að "borða" - og í staðinn gerja þeir hráefnið og draga verulega úr kolefnislosun heimilisins.
Þetta er lítill leiðarvísir til að tryggja sem farsælasta samvinnu.
Hvað þykir góðgerlunum gott að borða?
Það má setja svo gott sem allt í tunnuna. Þar með talið kjöt, fisk, sítrusávexti og kaffikorg. Ef þú vilt vera extra hjálpleg/ur við góðgerlana getur þú klippt eða skorið hráefnið smá niður áður en setur það í tunnuna, þá hafa góðgerlarnir meira yfirborð til að vinna með.
Það er hins vegar ekki æskilegt að setja mikinn vökva, stór bein eða mjög myglaðan mat í tunnuna.
Hvaða geri ég við vökvann sem góðgerlarnir gefa mér?
Með tímanum fer að safnast saman vökvi í botninum á tunnunni. Það er gott að tappa af vökva á 2-3 daga fresti eftir að hann fer að myndast. Þetta er næringarríkur vökvi sem má blanda 1:200-1:100 við vatn og vökva heimilisplönturnar og garðinn með. Það er ögn meiri lykt af vökvanum og því ekki æskilegt að geyma hann, enda líka algjör óþarfi því þú munt fá meira en nóg af vökva með tímanum. Afgangsvökva má hella niður í niðurföllin á heimilinu, en sagan segir að góðgerlarnir eru ágætis píparar.
Lyktin fer vissulega eftir því hvaða hráefni fer í tunnuna, en almennt talað þá á lyktin að vera svolítið súr og minna jafnvel svolítið á lyktina af ediki. Ef hráefnið fer að lykta skringilega eða mjög illa er það líklega merki um að eitthvað skrítið sé á seyði - þá er þumalputtareglan ætíð að bæta bara svolítið meira af góðgerlum í tunnuna.
Lykt er vissulega smekksatriði en ef það er eitthvað sem ég hef lært um bokashi-jarðgerð síðustu tvö árin er að 1. ef allt er í góðu lagi í gerjuninni er lyktin alls ekki vond og 2. lyktin er alltaf betri ef maður er spenntur fyrir ferlinu og samvinnunni við blessaða góðgerlana
Að gerjun lokinni er kominn tími til að blanda gerjaða hráefninu við jarðveg. Þetta má ýmist gera með því að grafa holu úti í garði (í smá fjarlægð frá plönturótum til að byrja með), eða blanda honum 50/50 við mold í kassa. Það er gott að búa til einskonar lagköku þegar gerjaða hráefninu og jarðvegi er blandað saman - enda elska allir lagkökur, bæði menn og mold.
Þess má þó geta að dýr, s.s. rottur, mýs, kettir og hundar sem eiga það til að flækjast um borg og bæi eru ekki spennt fyrir gerjaða hráefninu vegna þess hversu súrt það er. Svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að óboðnir gestir gæði sér á lagkökunni þinni.
Hverjar eru kjöraðstæður góðgerlanna?
Góðgerlarnir þrífast best í yfir 15°C og í loftfirrtum aðstæðum. Því er best að geyma bokashi tunnuna innandyra og passa að hún sé alltaf lokuð (þá kemur líka engin lykt, svo lokuð tunna er win-win fyrir þig og góðgerlana).
Hversu oft á ég að gefa góðgerlunum að borða? Það er ágætis þumalputtaregla að fylla ekki á tunnuna oftar en einu sinni á dag (sú sem þetta ritar gerir það almennt á 2-3 daga fresti). Þú getur t.d. safnað hráefninu í skál eða lítið fat upp á eldhúsbekk yfir daginn, og svo bætt því í tunnuna á kvöldin.
Í hvert sinn sem bætt er á tunnuna dreifirðu smá góðgerlablöndu/örveruklíð (20-40ml) yfir hráefnið, og þjappar vel - það má gera með þjöppunni sem fylgir með, eða jafnvel bara höndunum. Sumir láta plastpoka liggja yfir innihaldi tunnunnar til að tryggja enn meiri loftfirrð - og þá er fínt að nýta hann til að þjappa með.
Hvað tekur þetta samstarf við góðgerlana langan tíma?
Það tekur bara eins langan tíma og það tekur að fylla á tunnuna. Þegar hún er full leggur þú hana til hliðar í 2 vikur (í það minnsta, en má vera lengur) og fyllir næstu tunnu. Á þessum 2 vikum eru góðgerlarnir að gerja allt sem í tunnunni er.
Það er ágætt að taka fram að ásýnd hráefnisins hefur ekki breyst mikið eftir gerjun, enda hefst niðurbrotið á því ekki fyrr en út í jarðveg er komið. Þetta er smá eins og munurinn á gúrku (hráefnið fyrir gerjun) og súrri gúrku (hráefnið eftir gerjun).
Þá er kominn tími til að blanda gerjaða hráefninu við mold - en það er þar sem sjálf jarðgerðin (þegar lífræna hráefnið breytist í jarðveg) á sér stað. Þetta tekur mislangan tíma eftir því hvaða árstími er. Á sumrin getur það verið svo lítið sem tvær vikur þangað til jarðgerðin er tilbúin til nýtingar, en á veturnar tekur það lengri tíma.
Svo það má segja að bokashi-ferlið hefur 3 skref. Það fyrsta er að fylla á tunnuna, það næsta er að leggja hana til hliðar og leyfa góðgerlunum að gerja hráefnið og það þriðja er að blanda gerjaða hráefninu við mold.
Á veturnar getur það reynst svolítið áskorun að blanda gerjaða hráefninu út í mold því jörðin er frosin mest allan tímann. Þá er gott ráð að blanda gerjaða hráefninu í kassa og nota mold sem ekki er frosin. Það er hægt að útvega sér ófrosinni mold í s.s. byko, garðheimum eða blómavali. En það má líka undirbúa komandi vetur og moka smá mold í poka að hausti og geyma inni í geymslu eða bílskúr þar til þú hyggst nýta hana.
Ef þig langar að deila gleðinni geturðu boðið nágrönnunum að taka þátt í samvinnuverkefninu með þér. Ef lítið fellur til af lífrænu hráefni á þínu heimili má t.d. geyma bokashi föturnar frammi á stigagangi og fleiri íbúðir tekið þátt í því að gefa góðgerlunum að borða.