Myndasögur um lífkerfi moldarinnar

icon

Myndasögur um lífkerfi moldarinnar

Kostir þess að víkja frá línulegum úrgangs- og áburðarkerfum og innleiða hringrásarlausnir sem breyta lífrænum “úrgangi” í auðlind fyrir nærumhverfið.

Myndasögurnar eru teiknaðar af Elínu Elísabetu Einarsdóttur og voru hluti af fræðsluverkefninu Jarðgerð fyrir alla, sem styrkt var af Loftslagssjóði árið 2020. Myndasögurnar fengu silfur verðlaun í FÍT keppninni 2022 í flokknum myndlýsingaröð.

icon

Hamborgarar og takmarkandi næringarefni

Við vitum flest af hverju jarðgerð er mikilvæg frá sjónarhorni sóunar og útblásturs frá urðunarstöðum. En hún er líka mikilvæg í lífkerfi moldarinnar og plantnanna sem þar vaxa 🌱

Takmarkandi næringarefni eru næringarefni sem eru ekki stöðugt aðgengileg fyrir plöntur, með þeim afleiðingum að hefta vöxt þeirra og þroska. Í íslenskum jarðvegi er takmarkað magn af köfnunarefni (N).

Köfnunarefnisáburður bætir niturforða jmoldarinnar sem hjálpar plöntum að vaxa og dafna. En tilbúinn áburður getur líka leitt til fylgikvilla svo sem mengunar, að moldin verði háð áburðargjöf og minni líffræðilegs fjölbreytileika.

Bokashi bætir niturforða moldarinnar samtímis því að hlúa að örverum í jarðveginum sem halda áfram að gera köfnunarefni nýtanlegt fyrir plöntur. Eins og hið margþekkta orðatiltæki segir: “Gefðu moldinni köfnunarefni og hún mun nærast í dag; kenndu moldinni að gera köfnunarefni nýtanlegt og hún mun næra heilan skóg að eilífu amen”

icon

Út að borða í moldinni

Þó plönturætur séu færar um ótrúlega hluti eins og t.d. að smeygja sér inn í sprungur í leit af næringarefnum, vatni og lofti - þá er geta þeirra einnig takmörkuð. Það er mjög ólíklegt að öll sú fjölbreytta næring sem planta þarf til að vaxa og dafna sé alltaf innan seilingar. Hvað þá að næringin sé í formi sem plantan geti nýtt sér!?

Sem betur fer fyrir plöntur (og okkur!) lifa þær í góðu samlífi við örverusamfélögin í moldinni. Tvær aðalpersónur sem við ætlum að skoða í dag eru sveppþræðir (e. mycorrhizal fungi) og niturbindandi bakteríur.

Auðvitað er þetta mjög einföldið nálgun á flókin tengsl milli lífvera í moldinni - í raun hvílir undir fótum okkar stórborg moldarinnar, full af allskonar samlífi og fjölbreyttri samvinnu.

icon

Hundapössun og áburðargjöf

Tilbúinn áburður skaffar plöntum góðum slatta af næringu í “meltanlegu” formi. Þó það virðist frábært að bera næringuna beint á jarðveginn, er það ekki endilega víst að hún verði nýtt á skilvirkan og áhrifaríkan máta. Mikið magn af tilbúnum áburði kann skolast í burtu og mengað vatnsból (við tölum betur um það síðar).

Lífrænn áburður, eins og bokashi, sér plöntunum fyrir miklu meiru en bara næringunni sjálfri - í honum eru einnig lífrænt efni, örveruflóra og næring sem er tiltækileg plöntum yfir lengri tíma.

Rannsóknir hafa sýnt að tilbúinn áburður bælir bæði rótarvöxt plantna og örveruflóru moldarinnar. Þegar ofgnótt af tilbúnum næringarefnum er bætt á jarðveginn, þurfa plönturætur ekki að hafa eins mikið fyrir því að næra sig og geta vaxið ofanjarðar án þess að mynda sterkar rætur undir yfirborðinu.

Lífrænn áburður skapar hins vegar aðstæður sem stuðla að rótarvexti. Hraust rótarkerfi hafa afdrifarík áhrif á lífríki í jarðveginum og þrautseigju vistkerfisins. Þau stuðla að jafnvægi í vatnsbólum og tryggja að við fáum hreint drykkjarvatn, draga úr skriðuhættu og veðrun og binda kolefni úr andrúmsloftinu. Þannig skapast betri lífsskilyrði fyrir allar litlu örverurnar sem lifa neðanjarðar og hamingjusamar pöddur stuðla að hringrás næringarefna í moldinni sem síðar skilar sé betra í gróðurfari og næringarríkari fæðu fyrir okkur mannfólkið. Sterkur og fjölbreyttur gróður hjálpar til við að halda hitastiginu ofanjarðar í jafnvægi og veitir öðrum dýrum heimili og fæðu. Við fáum svo að njóta þessarar ótrúlegu náttúru í gönguferðum með hundunum okkar 🐶

icon

Heilsan okkar allra

Tilbúinn áburður hefur áhrif á meira en bara plöntur og jarðveg. Fyrstu viðbrögð plantna sem hafa fengið tilbúinn áburð eru að gleypa í sig næringuna í einum grænum hvelli og rækta lauf sín, stilka og ávexti. Hins vegar er venja fyrir því að bera meira af tilbúnum áburði á plöntur en þær geta notað í einu. Plönturnar nýta það sem þær geta, en þegar rignir skolast mikið af ónýttri næringu í burtu.

Þetta er svipað og að taka og mikið af C-vítamíni - líkaminn þarf bara ákveðið magn og svo pissum við restinni út. Ef þú ferð að finna fyrir kvefeinkennum og ákveður skyndilega að taka glás af C-vítamín töflum, mun líkaminn nýta það sem hann getur og losa sig við restina. Hins vegar, þegar plöntur og jarðvegur “pissa út” köfnunarefni berst það í vatnið okkar - ár, tjarnir, vatnsból, stöðuvötn og höf 💧

Þegar mikið magn af köfnunarefni skolast í vötn og út í sjó veldur það hraðri fjölgun svifþörunga, svokölluðum þörungablóma. Þegar þörungarnir deyja veldur það súrefnisskorti í vatninu sem ennfremur leiðir til dauða fjölda sjávardýra. Þessi svæði eru svokölluð “dead zones” vötnum og hafi ☠️

Hraustur jarðvegur er ekki einungis mikilvægur fyrir líf á landi - heldur líka hafið!

Svo má ekki gleyma því að undirstaða líkamlegrar heilsu eru ekki pillur og duft, heldur góður og næringarríkur matur, hreyfing, hvíld, samvera og fjölbreytt þarmaflóra! Gulrætur og súrkál gera líklega mun meira til að halda kvefinu í skefjum en eintóm bætiefni.

Moldin er eins og meltingarvegur jarðarinnar. Hún hefur áhrif á nánast allt líf og á plánetunni, rétt eins og þarmarnir eru beintengdir líkamlegri og andlegri heilsu okkar! Ef við leyfum okkur að hugsa um moldina á þann hátt er það borðliggjandi að hún á skilið fjölbreytta næringu úr lífrænum áburði, en ekki bara bætiefni og köfnunarefnis-pillur. Moldin fæðir okkur og við fæðum hana til baka - hin fullkomna hringrás ❤️🌱🌍